Horn IV & GoPro

Framtakssjóðurinn Horn IV fjárfestir í GoPro

Framtakssjóðurinn Horn IV slfh. hefur gengið frá kaupum á 35% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu GoPro ehf. Með kaupunum eru annars vegar keyptir hlutir af núverandi hluthöfum og hins vegar með útgáfu nýs hlutafjár og verður Horn IV stærsti einstaki hluthafi félagsins eftir kaupin. Fjármagnið sem kemur inn í félagið mun nýtast félaginu við uppbyggingu, þ.m.t. uppbyggingu sölu- og markaðsstarfs á alþjóðlegum mörkuðum og fyrir nýjar lausnir félagins sem hafa verið í þróun undanfarin ár. Fyrirtækið hefur verið rekið með hagnaði og er eitt fárra fyrirtækja sem hefur verið á lista Creditinfo yfir fyrirmyndarfyrirtæki frá upphafi.

GoPro er í grunninn tvö íslensk hugbúnaðarfyrirtæki; Hugvit hf. og Canalix ehf. Bæði fyrirtækin þróa og selja hugbúnað fyrir mála- og skjalastjórnun, hvort á sínu sviði. Hugvit einbeitir sér að þróun skýjalausna fyrir millistór fyrirtæki, stofnanir og sveitafélög, hérlendis og erlendis en Canalix að reglustýrðum ferlum fyrir stórar stofnanir, eingöngu fyrir erlendan markað. GoPro félögin eru með rúmlega 60 starfsmenn í 5 löndum og viðskiptavini í 8 löndum.

Horn IV er nýr framtakssjóður í rekstri Landsbréfa sem hóf starfsemi á síðasta ári. Sjóðurinn er 15 ma. kr. að stærð og eru kaupin fyrsta fjárfesting sjóðsins en fjárfestingartímabil hans er til loka júlí árið 2025.

„Kaup Horns IV á kjölfestuhlut í GoPro er afar ánægjuleg og mikilvæg félaginu. Með því fjármagni sem kemur inn í félagið mun því gefast kostur á að sækja fram og hraða uppbyggingu og umbreytingu félagsins og lausna þess fyrir skýið. Við höfum í gegnum árin leitast við að þróa lausnir í samstarfi við innlenda viðskiptavini og sækja fram með þær erlendis. Þetta er líkan sem gagnast ekki bara okkur heldur einnig okkar viðskiptavinum, auk þess sem það skapar verðmæti fyrir þjóðarbúið. Við munum nú m.a. horfa til aukinnar sóknar á erlendan markað með lausn fyrir dómstóla og tengda starfsemi sem við höfum undirbúið undanfarið“,

segir Ólafur Daðason, framkvæmdastjóri og einn stofnanda GoPro.

„Við erum mjög spenntir fyrir þessari nýju fjárfestingu. Félagið er mjög vel rekið með sterka stjórnendur og afburða starfsfólk. Reynsla starfsmanna ásamt einstaklega öguðum ferlum og vottunum mun nýtast í þeirri sókn sem fyrirtækið ætlar í á erlenda markaði. Við höfum trú á þeim vörum sem búið er að þróa innan fyrirtækisins og teljum þær eiga fullt erindi á erlenda markaði“

segja Hermann Már Þórisson og Steinar Helgason, framkvæmdastjórar Horns IV.

 

Mynd:
Steinar Helgason, framkvæmdastjóri Horn IV
Berglind Halldórsdóttir, sjóðsstjóri Horn IV
Hermann Már Þórisson, framkvæmdastjóri Horn IV
Ólafur Daðason, framkvæmdastjóri GoPro
Helga Ingjaldsdóttir, fjármálastjóri og stjórnarmaður GoPro